Latest News - Economy

BAZARnota

Veitingasalurinn á Bazaar/Oddson.

 

Um helgina lýkur matargleðinni Food & Fun, sem haldin er nú í 16. sinn. 

 

Undanfarin ár hef ég farið með góðum vinum að njóta veitinga á einhverju þeirra fjölda veitingahúsa sem tekur þátt í matarveislunni "Food and Fun" . Á föstudaginn var stefnan tekin á veitingahúsið Bazaar sem er á neðstu hæð JL-hússins vestast við Hringbraut þar sem nú er Oddson hótel. Reyndar var með herkjum að við kæmust inn á staðinn, svo illa er snjónum rutt frá gangstéttinni við bogadregið húsið - og flughált. Þegar inn er komið er víðáttumikil setustofa og móttaka fyrir hótelið. Vel var tekið á móti okkur og ljúfur skilningur á seinkomu okkar sem stafaði af því að einn borðfélaga var að ljúka við að pússa saman músíkalst par, en af kærleika og gleði yfir hátíðarleika stundarinnar brást brúðguminn í söng og hljóðfæraslátt í kirkjunni.


Food and fun matseðillinn hafði vakið forvitni okkar matgæðinganna fyrir fjölbreytni og frumleika sakir. Við ákváðum að velja sjálf vínin með matnum. Hvítvínið sem mælt var með matseðlinum leist okkur vel á, og fyrsti smárétturinn kom að bragði - sérkennilegu bragði. Hudson Valley Andapaté með möndlum og vínberjum sem áttu ágætlega við, en á einskonar bananabrauðsbotni - sem var eiginlega alveg út úr kú. Alls ekki vont en kannski pínu bragðvillt.

 

banana22

Hudson Valley andapaté.

 

Næst var borin fram sérkennilegur og skemmtilegur réttur; hörpuskel með sultaðri sítrónu og kavíar og ofan á kolsvört marengskaka. Liturinn úr bleki smokkfisks, mjög sérkennileg bragð- og litflétta með eilítið beisku bragði og miklum lit, svo engu líkara var en sessunautarnir hefðu logið fyrir þingnefnd og væru með svartar tungur þess vegna. En góður réttur, alveg laus við væmni og sætu þrátt fyrir marengsinn.

 

blekmarengs22

Hin alræmda blekmarengskaka með hörpuskel og kavíar.

 

Næsti smáréttur mætlist líka vel fyrir. Gellur Pil Pil með ólívuolíu, hvítlauk, og Chorizokurli (spænskt svínapylsuálegg). Eitthvað held ég að rjómi komi þarna við sögu en einhverjar bestu gellur sem ég hef fengið.

 

gellur22

Aðalgellur kvöldsins með hvítlauk, ólífuolíu og Chorizo.


Ígulker hef ég smakkað nokkrum sinnum, og held ég bara hjá Úlfari meistarakokki á Þrem frökkum. Sérkennilegt og salt bragðið er ógleymanlegt, óvenjulegt og framandi í senn. Sumir Asíubúar hafa tröllatrú á ígulkerjum og telja að neysla þeirra hafi mjög mikil og bætandi áhrif á mannlega náttúru, sérstaklega karlmennsku þeirra. Telja jafnvel líkur á standandi partíi ef mörg eru gleypt hratt og áfergjulega. Ekki gleypi ég við þessari hjátrú, en fróðlegt væri að sjá einhverjar rannsóknir sem styðja þessa mýtu. Ígulkerjaflanið sem borið var fram á Bazaar var forvitnilegt, með mildu bragði án þess að vera væmið eða of salt. Og allir bara sultuslakir á eftir.

 

igulker22

Ígulkerin komu skemmtilega á óvart með mildu og framandi bragði.

 

Þá var komið að skötusel og humri í Thai karrýsósu, fjólubláum sætum kartöflum og ljósum loftkenndum þeytingi með kókos, kaffir og límónubragði. Einstaklega bragðgott. Við fyrsta smakk virtist karrýsósunni vera ofaukið, en hún setti skemmtilegan endahnykk fyrir bragðlaukana.

 

skotuselur33
Skötuselur og humar með austurlensku ívafi.

 

Aðalrétturinn var andabringa og confit Bastilla, skemmtilega handerað með krossmerki yfir kassalaga formið, prestinum við borðið til ómældrar ánægju. Með þessu var borin fram Marakósk gulrót sem í mínum munni var þó fremur íslensk með mildu exótísku kryddi. Rétturinn var annars frekar hefðbundinn hvað bringurnar varðar, sem voru vel útilátnar, en fjölbreyttara meðlæti hefði verið vel þegið.


Eftirrétturinn olli nokkrum vonbrigðum eftir svo góða og marga rétti. Skyr, Hafþyrnaber, Kakó og reykt hunang náðu aldrei flugi. Rétturinn var fallega fram borin, með hárréttu litajafnvægi.

 

Í heildina er samt ljúft og skylt að lofa fjölbreytta og frumlega takta gestakokkanna Michael Aeyal Ginor og Lenny Messina. Þeir koma frá Bandaríkjunum, Michael er áhrifamikill framleiðandi Fois Gras, en hefur m.a. vakið athygli fyrir þróun rétta af matseðlum faróa og kónga fornaldar. Heimsóknir erlendra gestakokka á þessa skemmtilegu matarhátið eykur fjölbreytni matarflórunnar hér heima, og ekki síst nýjar og framandi eldunaraðeferðir og meðferð ólíkra hráefna. Lifi fjölbreytnin og takk fyrir okkur Bazaar.

 

- Halldór Árni