Latest News - Economy

Getur Reykjavík orðið meira spennandi fyrir fólk í skapandi greinum og aðdráttarafl? Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar stendur fyrir fundaröðinni BORGIN – HEIMKYNNI OKKAR um þróun og mótun borgarinnar. Síðasti fundur var haldinn þriðjudaginn 15. nóvember og fjallaði um sköpunarkraftinn.

 

Hugtakið sköpun (e. creativity, creative city) hefur notið vinsælda undanfarin ár í borgarumræðu. Andstæðan við skapandi borg gæti verið einsleit borg. Eitt einkenni umbreytingar birtist þegar borg gengur sköpuninni á hönd og skapandi greinar á ýmsum sviðum menningar breyta þekktum byggingum í svæði fyrir listir og menningu. Nýlegt dæmi um það er Marshall húsið við Grandargarð sem var síldarbræðsla í hálfa öld en verður menningar- og myndlistarmiðstöð.

 

Á fundinum var hin skapandi borg skoðuð út frá nokkrum sjónarhornum og spurningum, t.d. hvernig eru svæði borgarinnar, torg, byggingar og garðar nýtt sem rými til skapandi athafna? Hvernig skapast töfrandi andrúmsloft á viðburðum og iðandi mannlíf á götum borgarinnar? Gegna stjórnvöld mikilvægu hlutverki við að virkja sköpunarkraft fólksins í borginni og veita þau þeim efnahagslega afkomu? Leggja þau áherslu á fjölbreytta upplifun fyrir gesti og heimafólk?

 

Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves er dæmi um viðburð sem þar sem andi sköpunar svífur yfir vötnum og áhersla er bæði á sköpunargáfu heimafólks og gesta. Einnig má nefna ýmsa gjörninga, kvikmyndahátíðina RIFF, Hönnunarmars og Food and Fun sem góð dæmi. Að öðrum kosti teljast skapandi greinar m.a. arkitektúr, myndlist, hönnun, tíska, kvikmyndun, tónlist, sviðslistir, bókaútgáfa, hugbúnaður, matargerðarlist, útvarp, sjónvarp og leikjahönnun fyrir tölvur og önnur tæki. Nefna má að fyrsta setur skapandi greina í Reykjavík var opnað við Hlemm árið 2014. Þá er Hönnunarmiðstöð í Aðalstræti svo dæmi séu nefnd.


Fram komu, ásamt Hjálmari Sveinssyni formanni umhverfis- og skipulagsráðs, Sigrún Inga Hrólfsdóttir deildarforseti myndlistardeildar Listaháskóla Íslands, Grímur Atlason framkvæmdastjóri Iceland Airwaves tónlistarhátíðarinnar og Hildur Gunnlaugsdóttir arkitekt og verkefnisstjóri borgarhönnunar hjá Reykjavíkurborg. Upptökur af framsöguerindum þeirra eru hér að neðan, auk mynbanda af umræðum þeirra á milli og svo loks a fyrirspurnum gesta og umræðum á fundinum.