Latest News - Economy

Kunningi minn á fésbókinni hnippti í mig í dag og forvitnaðist um tvennt; Annars vegar hvað myndaði töluna 100 á prófílmynd minni á þeirri síðu annars vegar, og hvort ég væri hættur að pósta gömlu myndbandi dagsins á vefsíðu minni, www.netsamfelag.is. Hvoru tveggja varð mér tilefni til að bera af mér sakir eins og stjórnmálamenn eiga til að segja.

 

Myndin er mér einkar kær - svo lofthræddur sem ég er - að ég get varla staðið upp á stól og skipt um peru. Þarna var ég staddur í körfubíl yfir Hörðuvöllum á 100 ára afmæli Hafnarfjarðarbæjar og leit niður á (í bókstaflegri merkingu) eitt hundrað leiksólabörn í bænum mynda mennskt merki (e. Human Logo) af þessu tilefni. Með mér í körfunni voru nokkrir myndatökumenn aðrir, m.a. stórvinur minn og samstarfsmaður í mörg ár, Villhjálmur Þór Guðmundsson, nú á RÚV (sem á þessa kynþokkafullu hásu og ryðguðu rödd!!)

 

Hitt er verkur sem eg hef ekki alveg tæklað. Flesta daga er svo margt forvitnilegt að gerast sem kallar á síkvika athygli manns sem skortir alla einbeitingu og skipulag til að vinna úr því efni sem hrúgast upp - alla daga ársins síðustu þrjá áratugi. Þið getið samt prísað ykkur sæl að ég er ekki starfandi flugumferðarstjóri eða heilbrigðisfulltrúi. En - meðal fjölda verkefna sem ég vinn þó að núna - er að klippa mynd úr því mikla efni sem ég (og nemendur mínir í fjölmiðladeild Flensborgar sællar minningar) tók á aldarafmæli Hafnarfjarðarbæjar 2008.

 

Vonandi klárast sú mynd á næsta ári, en hér eru nokkur brot sem líta svona út, óunnin á klippiborðinu. Fremst talar minn góði samstarfsmaður úr Flensborgarskóla, Ása Katrín Hjartardóttir, dugnaðarforkur sem reyndi að koma skipulagi á okkar kaótísku vinnu í júníbyrjun 2008 (hún trúði því ekki að ég hefði fundið upp Time Manager forritið á sínum tíma og sneri sér alfarið að dönskukennslu eftir þetta!) Þá Villi rámi, en svo nokkrir góðir Gaflarar að skemmta sér á Víðistaðatúni og loks söngfuglar á hátíðartónleikum á Ásvöllum. En meira á næstu mánuðum, og vonandi fullkláruð mynd á næsta ári ef nokkur hefur þá áhuga á því að þessi tímamót varðveitist á filmu.

- Halldór Árni.