Latest News - Economy

Gamla myndband dagsins er svipmyndir úr 80 ára afmæli Ottó Watne Björnssonar, flöskusala (Otta flösku) í Gaflinum 1984.

Otti var einstæðingur, bjó í minnsta húsinu við Bröttukinn, og verslaði með flöskur í þrjá áratugi. Hann var vel liðinn í Hafnarfirði og í Reykjavík, hvar hann stundaði smá viðvik fyrir verslunarmenn í miðbænum. Hann átti góða að og í mörg hús að venda, ekki síst hjá frændfólki sínu í Skálholti við Hverfisgötu og svo í götunni minni, Köldukinn. Einkum hjá Svenna löggu og listmálara í Köldukinn 12, sem málaði magnaðar myndir af kallinum, en sér í lagi hjá Huldu Einarsdóttur og Jónatani Kristjánssyni (Tana) á Köldukinn 8, en þar var hann sérstakur aufúsugestur og þáði mat og gott atlæti. Tani var kvaddur hinstu kveðju á föstudaginn var, mikill höfðingi og hjálparhella nágranna sinna og vina, strangheiðarlegur maður með ríka réttlætiskennd sem ekkert mátti aumt sjá hjá mönnum og dýrum. Þegar ég hlýddi á falleg og gamansöm minningarorð prestsins innan um marga góða granna úr götunni sem komu til að fylgja Tana síðasta spölinn, áttaði ég mig á því að ég var ekki bara að kveðja góðann nágranna minn, heldur var ég að minnast við einstakt umhverfi æsku minnar. Í götunni minni bjó vinnusamt og hjartahlýtt fólk sem stóð saman þegar á reyndi, tók raunverulegan þátt í sorgum og gleðistundum hvors annars, og sýndi fyrst og fremst hjálpsemi og heiðarleika í samskiptum sín á milli. Þetta fólk átti ekki aflandsfélög og hefði ekki látið að sér hvarfla að víkja sér undan skyldum samfélagsins á nokkurn hátt. Þar fóru Tani og Hulda fremst meðal jafningja. Samfélagsskilingur þeirra reis einna hæst í þeirri vinsemd og virðingu sem þau sýndu Otta í hvívetna.

Þessi stikla er í lengra lagi, ég tímdi ekki að stytta hana mikið, þar sem fjölda Hafnfirðinga bregður fyrir, lífs og liðinna, t.d. tvær vaktir lögreglumanna sem voru sérstakir vinir Otta og velgjörðarmenn. Afmælisbarnið geislaði af gleði, nýstrokinn og fínn, en kvartaði sáran yfir því að aðeins hefðu um 200 manns þekkt boðið af þeim 300 sem hann hefði sent boðskort. En þannig var nú Ottó einu sinni - vildi gleðja fólk og veita vel.

- Halldór Árni.