City Life

En svarið til fésbókarvinar míns og sagan fer hér á eftir;

Þetta er nú fyndnara en þig grunar Pétur minn, því þetta henti þekktan Hafnfirðing sem nú er látinn. Hann hringdi þrisvar sinnum snemma morguns á skrifstofu Óðals. Þar varð fyrir svörum Helga Sigurðardóttir sem margir Gaflarar þekkja sem Helgu úr Matarbúðinni við Austurgötu. Í tvígang svaraði hún þeim sem hringdi, og spurði hvenær barinn opnaði, með því að hann opnaði kl. 18 síðdegis og lagði á. Ræddi Helga við Rebekku Friðgeirsdóttur samstarfskonu sína um að það væri skelfilegur þorsti viðskiptavina staðarins að hringja svo snemma dags. Í þriðja sinn hringdi síminn á skrifstofu Óðals og óðamála bað maðurinn Helgu um að leggja ekki á. Spurði svo hvort ekki kæmu skúringarkonur bráðum að þrífa staðinn. Helgu fannst nú ekki að það kæmi spyrjandum neitt við og sagði af sinn þekktu festu og ákveðni; "Barinn opnar klukkan 6 síðdegis, þú getur komist inn þá". "Inn?" skrækti maðurinn í örvæntingu. "Ég er að reyna að komast út!" Hann hafði þá sofnað á klósettinu kvöldinu áður og ráfað um húsið þegar hann vaknaði en komst hvergi út. Þú mátt giska Pétur hver þetta var, en þetta gerðist skömmu áður en ég réð mig sem plötusnúð og skemmtanastjóra í Óðali snemma á níunda áratugnum og var þar næstu 6-7 árin. En þessi saga var oft sögð.

 

Skemmst frá að segja var þetta Stefán Hermanns - Stebbi blóma - eins og hann var oft nefndur. Stefán var hvers manns hugljúfi, vinsæll maður og eftirsóttur í veslum og mannfögnuðum, var oftar en ekki beðinn um að annast blómaskreytingar, og þekkti allar konur, hvort sem var í Reykjavík eða Hafnarfirði. Hann var, eins og þeir sem þekktu hann vita, nokkuð vínhneigður - en manna kátastur og glaður. Margar sögur kann ég af Stefáni, en varð að láta þessa flakka vegna tilefnisins og vona að hinir mörgu vinir hans fyrirgefi mér það. Með því að birta aftur þetta afmælismyndband er ég reyndar að efna loforð við nokkra vini hans sem misstu af birtingu þess fyrir tveimur árum en það tapaðist eitthvað út í buskann þegar vefur þessi, netsamfelag.is, varð fyrir öflugri netárás.

 

Vinir og vandamenn Stefáns stóðu fyrir mikilli veislu í Fjörukránni hjá Jóa vini hans á setugsafmæli Stefáns. Veislustjóri var Baldvin Jónsson, en í upphafi talar vinur okkar Stebba, Þorsteinn Gunnarsson, sem vann með mér í Óðali til margra ára. Steini reyndist Stefáni mikill og góður vinur og hjálparhella í hvívetna. Steini skrifaði fallega minningargrein um Stefán sem ég fann fyrir rælni á netinu og læt slóðina fylgja hér, en myndbandið svo að neðan. Enn man ég Stefán Hermanns, og svo er örugglega með marga aðra - ekki bara Hafnfirðinga.

- Halldór Árni.

 

Minningargreinar í Morgunblaðinu um Stefán eru á þessari slóð;

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1457403/?item_num=100&searchid=cf7d17032023775b12716f0f3a2de8b05e082bab