Ásýnd kvenna – við upphaf kosningarréttar

0
2650

Reykjavíkurborg minntist þess með margvíslegum hætti árið 2015 að þá var liðin öld frá því að konur, 40 ára og eldri, fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Einn af tæpum 100 viðburðum sem skipulagðir voru vegna þessa var sýningin Ásýnd kvenna – við upphaf kosningaréttar, sem sett var upp í Borgarbókasafni í Grófarhúsi, Tryggvagötu 15.

Sýningin byggist á skjölum og ljósmyndum kvenna varðveittum á Borgarskjalasafni Reykjavíkur frá árunum 1910-1920 þegar konur voru að fá kosningarétt og kjörgengi. Ásýnd kvenna er ekki ætlað að rekja sögu kvenna, heldur fremur gefa áhorfandanum tilfinningu fyrir konum og lífi þeirra á þessum tíma.

Á sýningunni var töluvert af sendibréfum kvenna en þau eru samtímaheimild sem lýsa vel lífi og hugrenningum kvenna og hvað þær voru fást við og að hugsa á þessum árum, þegar þær voru að fá kosningarétt og margháttaðar breytingar voru á samfélaginu. Þá var á sýningunni beinlínis hægt að heyra raddir kvenna í sendibréfum þeirra.

Hluti af sýningunni er innsetning Guðrúnar Sigríðar Haraldsdóttur „kven:vera”, sem er unnin með blandaðri tækni með efni og aðferð sem hún hefur þróað í verkum sínum á síðastliðnum árum. Guðrún Sigríður finnur myndrænan efnivið verksins í ljósmyndum og handskrifuðum sendibréfum í sýningunni og leitast við að rýna inn í og undir yfirborð myndefnisins í leit að nánari skilningi og dýpri innsýn í viðfangsefnið.

Við formlega opnun sýningarinnar ræddi ég við borgarskjalavörð, Svanhildi Bogadóttur og Guðrúnu Sigríði Haraldsdóttur, myndlistarkonu, um sýninguna og uppsetningu hennar. Guðrún Sigríður lést nýlega eftir snörp og erfið veikindi.

  • Halldór Árni.

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here